Flřtilei­ir

Su­ureyrarh÷fn

Sími:  450 8086 - Fax: 456 6124 - Farsími: 864 0325 

Póstfang: sudhofn@isafjordur.is
Hafnarvörður á Suðureyri er Þorleifur Kristján Sigurvinsson.

 

Byggðin á Suðureyri við Súgandafjörð á sér ekki langa sögu. Í byrjun 20. aldar voru þar aðeins tvö íbúðarhús en upp úr því fór þeim að fjölga verulega. Árið 1906 var fyrsti vélbáturinn keyptur til Suðureyrar og fimm árum síðar voru íbúarnir orðnir um 200. Suðureyri er friðsælt þorp þar sem afkoman byggist að mestu á sjávarútvegi. Smábátaútgerð er öflug og setur mikinn svip á bæjarlífið, einkum á sumrin. Búsetuskilyrði á Suðureyri bötnuðu við tilkomu Vestfjarðaganga og fólk sækir vinnu á milli byggðarlaga. Á Suðureyri er hitaveita sem fær heitt vatn frá Laugum, litlu innar í firðinum. Þaðan kemur líka vatnið í sundlaugina á Suðureyri, sem er eina útisundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar á Suðureyri eru um 300.

Suðureyri liggur einstaklega vel við öllum fiskimiðum á norðanverðum Vestfjörðum. Mjög auðvelt er að rata um innsiglinguna á minni bátum en stýrimenn stærri skipa gætu þurft að fá tilsögn þar sem dýpi er tiltölulega lítið. Þegar komið er inn í höfnina eru menn strax komnir í lífhöfn.

 

Öll þjónusta er til fyrirmyndar á Suðureyri. Á hafnarkantinum eru þrír löndunarkranar, fiskmarkaður, beitningaþjónusta, slægingar- og löndunarþjónusta og frystihús. Í hafnarhúsi er bað- og snyrtiaðstaða fyrir sjómenn og er hún opin allan sólahringinn, allt árið um kring. Þægilegt er að taka minni báta á land því innst í höfninni er braut sem hægt er að nota til viðgerða. Bak við hafnarhús er gott aðgengi að vatni og rafmagni svo menn geti þrifið báta sína og dyttað að þeim.

 

Þess má geta að árið 2008 fékk Suðureyrarhöfn í fyrsta sinn að flagga Bláfánanum, alþjóðlegri viðurkenningu sem veitt er rekstraraðilum baðstranda og smábátahafna fyrir góða umhverfisstjórnun

Vefumsjˇn