Flřtilei­ir

Hva­ er a­alskipulag?

Aðalskipulag nær yfir allt land sveitarfélags, snertir alla þætti sveitarfélagsins beint eða óbeint og gildir í 12 ár eða lengur. þar er lagður grunnur að þróun sveitarfélagsins, ákveðið hvað á að vera hvar, hvernig á að móta umhverfið, hvað á að friða og hvernig á að nýta auðlindir. Hvar eiga til dæmis íbúðasvæði, skólar, athafnasvæði, útivistarsvæði, verndarsvæði, vegir, efnistökusvæði, flugvellir, þjónustustofnanir og hafnarsvæði að vera? þar er landnotkun ákveðin og deiliskipulag byggir á þeim landnotkunarflokkum og þeirri stefnu sem er sett fram í aðalskipulagi.

 

Afmörkun íbúðasvæða er til dæmis sýnd í aðalskipulagi og þeirri afmörkun verður að fylgja þegar deiliskipulag er unnið fyrir viðkomandi svæði. Það kemur fyrir að við nánari skipulagningu svæða kemur í ljós að svæðið sem um ræðir er ekki heppilegt af einhverjum ástæðum. Það er kannski of lítið eða of stórt miðað við eftirspurn, umferð hefur ef til vill aukist og því er nálægð svæðisins við umferðaræðar orðin of mikil, verðmætar fornminjar finnast eða nýjar hugmyndir fæðast um landnokun innan svæðisins. Hver sem ástæðan er fyrir breyttum forsendum þá þarf að bregðast við því og breyta stærð, afmörkun, skilmálum eða landnotkun innan viðkomandi svæðis í gildandi aðalskipulagi áður en deiliskipulag er gert eða samhliða vinnu við það.

 

Fyrir utan ófyrirsjáanlegar breytingar á forsendum fyrir landnotkun í skipulagi er svo kveðið á um í skipulags- og byggingarlögum að í upphafi hvers kjörtímabils sveitarstjórnar skuli hún meta hvort endurskoða þurfi gildandi aðalskipulag.

 

Aðalskipulag er venjulega sett fram í tveimur hlutum, þeir eru

 • uppdráttur sem sýnir afmörkun svæða og landnotkun innan þeirra og
 • greinargerð sem skýrir nánar hvað felst í landnotkunarflokkunum og hvaða skyldur, kvaðir og takmarkanir eru innan hvers svæðis.

Verkþættir

Verkþættir við gerð aðalskipulags eru: Tillögugerð, umhverfismat, kynning og samráð og ákvarðanataka.

 

Skipulags- og byggingarlög

1. og 2.mgr. 1.gr. skipulags- og byggingarlaga fjallar um markmið laganna. Þar segir m.a. að markmið þeirra sé að þróun byggðar og landnotkunar á landinu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi. Ennfremur er lögunum ætlað að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

 

Umhverfismat og umhverfisþættir

Umhverfismat áætlana er ferli sem beitt er til að stuðla að umhverfisvernd og sjálfbærri þróun við gerð áætlana. Félagsleg-, efnahagsleg- og umhverfissjónarmið eru þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar við mótun áætlana.

 

Í tilskipun Evrópusambandsins um umhverfismat áætlana eru eftirfarandi umhverfisþættir tilgreindir:

 • Íbúar
 • Efnisleg verðmæti
 • Heilsa manna
 • Líffræðileg fjölbreytni, dýr og plöntur
 • Jörð, jarðvegur
 • Vatn
 • Loft
 • Veðurfar
 • Landslag
 • Menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar minjar og fornleifar

Umhverfisþættir eru þeir þættir sem eru taldir geta orðið fyrir áhrifum af áætlun eða framkvæmd. Við umhverfismat er ástandi umhverfisþátta lýst, áhrif stefnu og framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti könnuð og metið hvernig gengur að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í áætlun.

 

Nánari upplýsingar um aðalskipulag og gerð þess er m.a. að finna á vef Skipulagsstofnunar

Vefumsjˇn