Flřtilei­ir

═safjar­arbŠr 10 ßra, 1996-2006

Árið 2006 voru liðin 10 ár frá því að sex sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum sameinuðust og úr varð Ísafjarðarbær. Áratuginn þar á undan hafði verið unnið markvisst að því að sameina sveitarfélög víða um land og fækka þeim. Þessi þróun var ekki síst merkjanleg á Vestfjörðum, en frá árinu 1987 hafði slík sameining farið fram níu sinnum, og myndun Ísafjarðarbæjar varð sú tíunda á þessu tímabili.

 

Megintilgangur sameiningarinnar var að styrkja byggð á svæðinu, snúa vörn í sókn, renna traustari stoðum undir félagslega þjónustu og efla samstöðu byggðarlaganna. Eins og við mátti búast voru sjónarmiðin í þessu máli mörg og ekki tóku allir sameiningarhugmyndunum fagnandi. Margir hafa djúpar tilfinningar gagnvart sinni heimabyggð og sameining við önnur sveitarfélög því oft erfitt skref að taka. Skoðanakönnun Bæjarins Besta í lok októbermánaðar 1995 sýndi þó að mikill meirihluti íbúanna á svæðinu væri fylgjandi sameiningu. Í niðurstöðum könnunarinnar mátti sjá að meirihluti íbúa á svæðinu var bjartsýnn á að sameinað sveitarfélag yrði öflugra fjárhagslega, öflugra gagnvart ríkinu, gæti veitt betri félagslega þjónustu og að þar gæti atvinnulíf orðið sterkara.

 

Sameiningarkosningarnar voru boðaðar 11. nóvember 1995, en var frestað vegna hins hörmulega snjóflóðs á Flateyri. Það var svo í desember sem íbúarnir gengu að kjörborðinu og samþykktu sameiningu með ríflega 74% atkvæða. Sameiningin hlaut mest fylgi á Suðureyri, eða tæplega 87%, en minnst á Þingeyri, tæp 63%. Þátttaka í kosningunum var ekki ýkja mikil, eða tæp 53%. Mest var hún í Mýrahreppi, um 81%, en minnst á Ísafirði, tæp 48%.

 

Ákveðið var að ganga til kosninga um stjórn hins nýja sveitarfélags í maí 1996 og kjósa bæjarstjórn til tveggja ára, eða fram að næstu almennu sveitarstjórnakosningum í landinu. Þessar kosningar urðu sögulegar og vöktu mikla athygli um land allt, ekki síst vegna velgengni Funklistans, lista framhaldsskólanema á Ísafirði. Þetta framboð flaggaði leikaranum Hugh Grant í auglýsingum sínum, setti fallegt fólk í fyrirrúm og boðaði m.a. innflutning á elgjum. Boðskapurinn hitti í mark og listinn fékk tvo menn kjörna í fyrstu bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Það voru hins vegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur sem mynduðu meirihluta í stjórn hins nýja sveitarfélags og var málefnasamningur flokkanna undirritaður í jarðgöngunum undir Breiðadals- og Botnsheiðar. Þetta var táknrænn staður, enda voru göngin forsenda þess að sameining sveitarfélaganna sex væri raunhæfur kostur og að þau gætu orðið að einu stjórnsýslu- og atvinnusvæði. Fyrsti bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar var Kristján Þór Júlíusson. 

 

Samhliða kosningunum voru greidd atkvæði um nafn á nýja sveitarfélagið. Kallað var eftir hugmyndum frá íbúunum og bárust margar tillögur, bæði í gamni og alvöru. Á endanum var samþykkt að kjósa á milli fimm nafna: Arnarbyggð, með vísan í Arnarfjörðinn, Eyrarbyggð með vísan í nöfn þéttbýliskjarnanna, Fjarðabyggð með vísan í hina fjölmörgu firði í sveitarfélaginu, Ísafjarðarbyggð og Ísafjarðarbær. Síðastnefnda heitið hlaut langflest atkvæði, eða um 48%.

 

Sveitarfélagið Ísafjarðarbær varð svo formlega til þann 1. júní 1996. Þetta er víðfeðmt sveitarfélag sem teygir sig allt frá Arnarfirði að Geirólfsnúpi á Hornströndum, alls um 2.400 km2. Þéttbýliskjarnarnir eru fimm; Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörður og Hnífsdalur. Slík samsetning kallar á mikla þjónustu af hendi bæjarins. Í tæplega 4.000 manna samfélagi eru þannig sex leikskólar, fjórir grunnskólar, fjórar sundlaugar, fimm íþróttahús og fjórar hafnir. Á fimmta hundrað manns starfar hjá sveitarfélaginu.

 

Atvinnutækifæri í bæjarfélaginu eru fjölbreytt, bæði fyrir menntað og ómenntað fólk. Ísafjörður er höfuðstaður Vestfjarða og þar eru unnin ýmis störf sem tengjast stjórnsýslu og hinu opinbera. Hvað varðar hina hefðbundnu atvinnuvegi, þá er landbúnaður á svæðinu þó nokkur, þótt búum hafi fækkað eins og annars staðar á landinu. Á svæðinu er fyrst og fremst stunduð sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla, en einnig hefur skógrækt verið vaxandi þáttur í starfi bænda.

Sjávarútvegur hefur í gegnum tíðina verið lang mikilvægasta atvinnugreinin í öllum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins. Á síðustu tuttugu árum eða svo hefur allt umhverfi þessarar atvinnugreinar tekið miklum stakkaskiptum.

Þeim breytingum fylgdu umtalsverðir erfiðleikar í bæjarfélaginu eins og víða um land en nú virðist þó sem úr sé að rætast, og þrátt fyrir öll áföllin er staðan sú að í dag hefur ekkert sveitarfélag á Íslandi yfir eins miklum fjölda fiskibáta að ráða og Ísafjarðarbær. Þessi atvinnugrein er svæðinu mikilvæg, nú sem fyrr, en ríflega 20% íbúa Ísafjarðarbæjar vinna við sjávarútveg í einni eða annarri mynd. Umhverfið er þó orðið allt annað er áður var. Margir stóru skuttogaranna eru farnir en í staðinn hafa smábátaveiðar vaxið og dafnað. Fiskvinnslan í landi, sem áður færði mörg hundruð manns atvinnu, hefur líka mikið breyst og þar er ekki lengur þörf fyrir eins margar hendur og áður.

 

Í kringum fiskiðnaðinn hafa alla tíð dafnað allskyns þjónustugreinar, járnsmíði, vélsmíði og aðrar iðngreinar, ásamt hvers kyns vísinda- og rannsóknastarfi. Í Vestrahúsinu, einu af þeim húsum sem áður hýsti fiskvinnslu, er nú orðið helsta athvarf vísinda- og rannsóknarstarfsemi á svæðinu. Í húsinu er aðsetur Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matis, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands, Fjölmenningarseturs, Markasstofu Vestfjarða, Vinnumiðlunar Vestfjarða og Vinnueftirlitsins. Í húsinu er líka nýtt og glæsilegt háskólasetur Vestfjarða, þar sem hægt er að stunda fjarnám við háskóla um allt land, og víða erlendis. Þá er þar líka Fræðslumiðstöð Vestfjarða, sem býður upp á hverskyns námskeið og símenntun sem ekki er á háskólastigi.

Við sem hér búum þreytumst seint á tala um Ísafjörð sem menningarbæ. Víst er að hróður tónlistarlífsins í bænum hefur borist víða.

 

Hér erum við með Tónlistarskóla Ísafjarðar, einn af eldri og virtari tónlistarskólum á landinu. Tónlistarfélagið opnaði fyrir fáum árum tónleikasalinn Hamra, sem er eitt af þremur opinberum menningarhúsum á Ísafirði, þar sem mikið er um hvers kyns uppákomur, aðallega tónleika en einnig leiksýningar, upplestra o.fl. 

 

Edinborgarhúsið í Miðkaupstað er annað menningarhús.  Að því standa Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar, Myndlistarfélag Ísafjarðar, Litli Leikklúbburinn o.fl. Í húsinu eru sýndar og kenndar hvers kyns listir, tónlist, leiklist, myndlist, dans o.s.frv.  Húsið er líka vinsælt fyrir hvers kyns uppákomur, t.d. koma þar saman á hverju hausti margir af helstu rithöfundum þjóðarinnar og lesa úr verkum sínum.

Þriðja menningarhúsið í bænum er svo Safnahúsið á Eyrartúni sem hýsir bókasafn, skjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn.  
Það er margt sem hefur drifið á daga hins tíu ára sveitarfélags en ljóst er að mikið verk er framundan við að gera samfélag okkar enn betra í náinni framtíð. Uppbygging Ísafjarðarbæjar mun fyrst og fremst ráðast af markvissri og árangursríkri stjórn sveitarfélagsins og frumkvæði og djörfung íbúanna sjálfra og trú á samfélagið í heild.

 

Til hamingju Ísafjarðarbær !

Vi­bur­adagatal
« Nˇvember »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    
Vefumsjˇn